föstudagur, 9. júlí 2010

Ég hefði ekki trúað því að ég gæti orðið leið á hita. Nú er svo komið að ég hangi inni alla daga til að geta dregið andann. Það er alltof heitt og þungt loft úti til að hægt sé að vera þar. Dætur mínar hanga inni allan daginn af sömu ástæðu og eru við það að gera mig gráhærða því þeim finnst þær ekkert hafa að gera nema þær fái að horfa á sjónvarpið allan daginn í hitanum. Ég geri mitt besta til að gera líf þeirra óbærilegt. Læt þær leysa stærðfræði verkefni, lesa bækur upphátt á íslensku (sem ég hef því miður vanrækt) og svo læt ég þær blogga á íslensku í ofanálag. Þetta leggst mis vel í þær en þær, fer eftir því hvað er í sjónvarpinu.

mánudagur, 29. júní 2009

Jæja, loksins er ég búin að laga bloggið mitt. Ég hef getað hunsað útlit þess síðustu mánuði þar sem það leit alltaf svo vel út í tölvunni minni og auðvitað skoðaði ég bloggið alltaf í henni. Núna er tölvan í geymslu og ég hef eingöngu aðgang að PC tölvu. Vandamálið varð að þeim sökum ekki flúið lengur - ég er svo mikil umbúðamanneskja. Það var annað hvort að laga þessa galla eða skipta um útlit á blogginu. Ég eyddi miklum tíma í að leita að nýju útliti en fann ekkert sem ég vildi í staðinn og neyddist af þeim sökum til að hella mér í boggviðgerðir.

Ég hef haft mikinn tíma fyrir þráhyggju af þessu tagi síðan ég kom í sveitina til Sigtryggs og Línu í fyrradag. Ég settist því niður og lagaði litlu gallana. Þegar ég var búin að laga þetta á tölvunni hjá mér fór ég í tölvuna hans Sveins en þar vantaði neðan á stafina í titlinum. Þetta varð því löng leit í gegnum html málið þar sem ég varð að fjarlægja einn hlut í einu og athuga hvað myndi gerast. En viti menn, þetta tókst! Kannski er ég á leiðinni í vitlaust nám, ætti ég að gerast html-ari?

Ef það vantar á titil síðunnar hjá einhverjum, og myndin efst á síðunni er 10-15 cm fyrir neðan titilinn - vinsamlegast látið mig vita.

sunnudagur, 28. júní 2009

Linnetzgengið á orðið heimili á ný. Reyndar ekki fyrr en 15. ágúst og við komum ekki til USA fyrr en þann 20. þannig að við erum í góðum málum. Nýja húsið er raðhús, reyndar ekki með bílskúr, en húsið sjálft er rúmbetra en gamla húsið okkar. Við erum með lokaðan garð sem er hellulagður, kjallara og tvær hæðir. Nóg pláss fyrir fólk til að koma að heimsækja okkur. Loksins getum við tekið uppúr bókakössum því það eru innbyggðar bókahillur á tveimur veggjum í húsinu. Nýi bærinn okkar heitir Falls Church og er í Virgina hluta DC. Skólinn er á bak við húsin sem eru á móti okkur í götunni þannig að það er stutt að fara. Við vorum að skoða blokkaríbúðir sem voru betur staðsettar gagnvart metró þar sem íbúarnir deildu saman sundlaug en um leið og stelpurnar sáu þetta hús þá var ekki aftur snúið. Þær voru eins og ristpuð plata "Þetta er húsið mamma!" Hverjir ætla að koma í heimsókn? Heimilisfangið er 3320 Ardley Court, Falls Church, Virgina (man ekki póstnúmerið).

fimmtudagur, 25. júní 2009

Þá erum við formlega orðin heimilislaus. Búslóðin er komin í geymslu með smá fórnarkostnaði. Þrjár tær á vinsta fæti eru verulega bólgna eftir trilluslys - ég er svona fallega fjólublá á þeim líka. Ég er samt farin að geta stigið í fótinn aftur sem eru miklar framfarir frá því í gær.

Við erum á hóteli í bæ sem heitir Fairfax í Virgina. Við erum að leita okkur að húsnæði í hverfum sem liggja við DC. Við erum búin að skoða þrjár íbúðir. Okkur leist sérlega vel á eina þeirra. Þar var parket á allri íbúðinni sem er afar sjaldgæft hér um slóðir. Oftast er teppi talið upp sem sérlegur kostur þegar íbúðum er lýst. Það finnst okkur hins vegar ekki. Þessar í búðir eru samt allar mjög litlar en það er ekkert annað í boði þegar maður er námsmaður.

Á milli þess sem við krúsum netið, hringjum út af húsnæði og skoðum íbúðir - reynum við að njóta lífsins á sundlaugarbakkanum hér á hótelinu. Stelpurnar eru í himnaríki. Sund og Disney channel til skiptis allan daginn. Lífið verður ekki mikið betra í 30 stiga hita.

mánudagur, 15. júní 2009

Það kom loksins að því í gær að við fjölskyldan drifum okkur í Empire State bygginguna. Við notuðum tækifærið og fórum í túrista leik með Önnu, Grétari og Daníel Loga. Það er alveg frábært að sjá yfir alla borgina. Krakkarnir voru þó komnir með nóg þegar búið var að fara einn útsýnishring. Þá var kominn tími á eitthvað nýtt. Við ætluðum að taka svona túrista rútu í kringum borgina en ákváðum að fara frekar í tívolíið í Central Park. Það fannst grísunum toppurinn á tilverunni.

föstudagur, 12. júní 2009

Jæja, þá er kominn föstudagur og bara vika eftir af skólanum hjá stelpunum. Ég er búin að þeysast á milli skóla og heimilis síðustu þrjár vikur og hlakka því mikið til þegar törninni lýkur. Það eru vettvangsferðir, uppskeruhátíðir, íspartý, leiksýningar, þátttaka í stöðvavinnu, international dinner, picnic í ensku fyrir útlendinga og margt fleira. Ég hef því þurft að vera í skólanum oft á dag suma daga og allan daginn aðra. Til að toppa törnina vildi Þórkatla ólm halda uppá afmælið sitt áður en skólanum lýkur þannig að í gærkvöldi héldum við 16 barna partý. Þegar ég var að kenna fannst mér allt of mikil dagskrá í skólakerfinu í aðdraganda jólanna en ég tek íslenska jólamánuðinn í nefið eftir þessa reynslu.

Annars þá er fullt að frétta af okkur. Anna, Grétar og Daníel Logi hafa verið í heimsókn hjá okkur síðan í lok maí en þau fara heim 16. júní. Við flytjum úr húsinu okkar 22. júní en erum ekki komin með húsnæði í Washington DC ennþá. Við ætlum því að setja búslóðina í geymslu í tvo mánuði. Planið er að fara á eftir búslóðinni til DC og gefa sér viku í að finna hús. Að því loknu ætlum við að ferðast aðeins og svo er stefnan tekin á Ísland þann 9. júlí. Þar ætlum við að vera til 20. ágúst. Vonandi getum við tekið upp úr kössum fyrir mánaðamótin ágúst/september. Ef ekki þá verður þetta bara ævintýri. Ég veit hins vegar ekki hvort ég verð í stuði fyrir ævintýri á þeim tímapunkti því það er ekki hægt að skrá stelpurnar í skóla ef við erum ekki með húsnæði.

laugardagur, 23. maí 2009

Það lítur út fyrir að ég þekki hvorki heimavinnandi húsmæður né tölvusnillinga. Ég hef því tekið á það ráð að blogga bara á þessa síðu eins og hún kemur fyrir. Flott fyrir Mac en ekki PC. Veit ekki hvernig ég leysi það vandamál öðruvísi en að biðja fjölskyldu og vini sem eiga PC um að kaupa sér nýja tölvu svo bloggið mitt verði fallegt hjá þeim líka.