föstudagur, 19. desember 2008

Það snjóaði í dag - mikið. Það er allt á kafi. Kl. 12 á hádegi byrjaði að snjóa með stæl. Rúðuþurrkurnar höfðu vart undan og afturrúðuhitarinn alls ekki. Ég sá ekki út um afturrúðuna á leiðinni heim úr búðinni. Ég skil samt ekki af hverju það þarf að loka skólanum út af svolítilli ofankomu.
Það er ekki skóli hjá Þórkötlu og Dýrleifu í dag vegna þess að það spáir snjókomu uppúr hádegi. Ég á mjög erfitt með að skilja þetta. Það er auðvitað ekki pottþétt að það snjói. Mér skilst að í fyrra hafi skólanum veri aflýst vegna yfirvofandi snjókomu sem aldrei kom. Það má víst aflýsa skólanum hér 5 sinnum yfir veturinn vegna snjós. Ef lítið eða ekkert snjóar styttist skólaárið sem nemur um þá daga sem ekki voru nýttir í snjófrí.

Annars erum við frekar slök hér í Ameríkuhreppi. Erum ekki einu sinni búin að kaupa jólatré hvað þá spá í hvað eigi að borða á aðfangadagskvöld. Það er mjög lítið stress í undirbúningnum þetta árið. Pakkarnir til Íslands fóru í nóvember og búið að ákveða hvað á að gefa gríslingunum að þessu sinni. Það sem veldur mér mestu stressi öll jól eru blessuð jólakortin, og þó svo ég sé heimavinnandi þá eru þau ekki enn komin í póst - sem oft áður. Þetta verða bara nýjárskort eins og svo oft áður.

mánudagur, 15. desember 2008


Við rákumst á þetta skilti á ströndinni í Point Pleasant, New Jersey. Við vorum frekar langt frá og sáum því bara svörtu stafina. Smellið á myndina til að lesa það sem þarna stendur. Í fyrstu fannst okkur þeir þarna í New Jersey frekar frjálslegir. Svo sáum við það sem stóð fyrir neðan.

miðvikudagur, 10. desember 2008


Piparkökuhúsin gerast ekki flottari en þetta. Það segja að minnsta kosti dætur mínar. Þær eru afskaplega ánægðar með árangurinn. Mæður hér í Ameríkuhreppi eru svo svakalega heppnar, allt sem til þarf kemur með í pakkanum. Ég þurfti því ekki að láta mér detta í hug með hverju þær ættu að skreyta húsið. Meira að segja bakkinn kom með. Þetta fékkst allt fyrir litlar 1000 kr íslenskar. Það gerist varla betra fyrir ALLA.

sunnudagur, 7. desember 2008

Það snjóaði í dag. Við mæðgur erum búnar að spila fullt af skemmtilegri jólatónlist, skreyta húsið og föndra meiripart dags. Jólaskapið er komið á sinn stað. Nú vantar bara jólatréð.

föstudagur, 5. desember 2008

Það eru víst að koma jól. Mér gengur ekki nógu vel að komast í jólaskap og er það sennilega vegna þess að úti er ekkert jólalegt. Að vísu eru margir búnir að skreyta húsin sín MIKIÐ en úti er bjart á daginn, grasið er ennþá grænt, slatti af lauftrjánum og runnum hér hafa enn ekki misst laufin, það eru 3 gul blóm í blómabeðinu mínu og stjúpurnar í næsta garði eru ekki enn farnar í dvala. Þegar jólaskrauti er svo bætt við þetta allt saman minnir það meira á leiksvið þar sem allt er tínt til svo hægt sé að halda sýningu. Það lítur ekki út fyrir að vera ekta "jóla".

mánudagur, 1. desember 2008

Mér hafa borist beiðnir um að blogga meira eða allavega kýs ég að túlka það þannig. Þetta voru reyndar kvartanir yfir bloggleti minni og hér með skal úr því bætt. Stutt ágrip:
Ólöf, Einar og Oddný Helga komu í 5 daga heimsókn. Við fórum saman í siglingu framhjá Frelsisstyttunni og svo inn á Ellis Island, í Outlet Mall en svo léku þau sér á Manhattan hina dagana. Ég sakna þess ennþá að þau komi ekki heim á kvöldin því það er eitthvað svo kósý að sitja og kjafta um daginn og veginn.

Við hjónin fórum bæði í bílpróf og náðum. Sveinn byrjaði sitt próf á því að skulta prófdómaranum sínum á SUBWAY svo hann gæti keypt sér hádegismat. Minn prófdómari var fúll og argur og lét mig alltaf beygja til hægri. Ég hef komist að því að þó svo skírteinin kosti ekki mikið þá er þetta hið mesta peningaplokk þar sem við fengum ekki að sýna hvað í okkur býr - með því t.d. að bakka í stæði því að ég æfði mig í 2 klukkutíma daginn fyrir próf. Svo fékk ég ekki að sýna hvað ég var orðin klár.

Við keyptum okkur bíl og rúntum nú um Ameríkuhrepp með niðurskrúfaðar rúður og spilum hátt svona eins og Stebbi og Jói Hauks gerðu í Þorló forðum daga. Drossían er hvítur Mitsubishi Galant árgerð 2001. Svona agalega fínn og góður bíll.

Dýrleif átti 7 ára afmæli þann 25. nóvember og kvartaði mikið yfir því hvað það væri mikið svindl að Þórkatla fengi stærra fjölskylduafmæli en hún þetta árið. Hún hefur sjálfsagt verið að hugsa um viðskiptahlutann: pakkana. En tannlausa dívan (það vantar í hana 4 tennur í efri góm) fékk góða gesti í heimsókn í tilefni dagsins, þau feðgin Gígju og Baldur. Gígja er gamla nágrannakonan okkar frá Bræðraborgarstíg, listakonan sem málaði allar flottu myndirnar mínar. Það var æðislegt að hitta þau þó það væri bara í einn dag að þessu sinni.

Um síðustu helgi var Thanksgiving. Við skruppum í heimsókn til ættingja minna í New Jersey og dvöldum þar í góðu yfirlæti í 4 daga. Við lögðu snemma af stað heim á laugardaginn og ætluðum sko aldeilis að vera á undan traffíkinni. Lentum svo í henni miðri þegar við vorum nánast komin heim þannig að það tók okkur tæpa tvo tíma að ferðast 5 km spöl við og yfir Tappan Zee brúnna sem er ekki langt frá heimabæ okkar.

Ívar Elí er 16 ára í dag. Hann kemur til okkar þann 19. desember og verður í hálfan mánuð. Hér bíð allir spenntir eftir að hann komi aftur til okkar. Nú verður hægt að fara með hann á rúntinn...