mánudagur, 25. ágúst 2008


Þá er Ívar farinn aftur til Íslands, Sveinn farinn að vinna alla daga og skólinn hjá stelpunum byrjar á miðvikudaginn. Lífið verður orðið rútína áður en langt um líður. Ég þarf að fara að fá mér ryksugu svo ég geti leikið alvöru húsmóður. Ég þoli ekki að sópa. Sveinn kemur svo að sjálfsögðu alltaf heim í heitan mat á kvöldin þar sem við mæðgur sitjum settlegar í sófanum og bíðum eftir að hann detti inn úr dyrunum.
Annars þá er gaman að segja frá því að OBAMA sendi mér SMS um daginn til að láta mig - bara mig - vita hvern hann hefði valið fyrir varaforseta. Sveinn stökk á fætur, skrifaði frétt sem hann átti bara eftir að lesa inn þegar rafmagnið fór - með því fór síminn og netið. Einhver trukkabílstjóri hafði slitið rafmagns og kapallínurnar í loftinu. Nú voru góð ráð dýr því minn maður ætlaði að ná þessu í hádegisfréttirnar. Hann sagði því hádegisfréttir í gegnum gsm símann. Þar sem ekkert bólaði á rafmagninu næstu klukkutímana fór Sveinn á stjá með fartölvu og myndavél - hann ætlað á kaffihús til að senda frétt. Það gekk ekki upp en áður en þá kom bókasafnið í Cos Cob honum til bjargar. Eftir að konurnar voru búnar að sussa einu sinni á hann lánuðu þær honum herbergi til að lesa inn. Allt fór þetta því vel að lokum en tók allan laugardaginn. Ég skil ekki af hverju kaninn grefur ekki línurnar í jörðu eins og við á Íslandi. Rafmagnið fer oft af hérna vegna eldinga og þegar fólk slítur línurnar með bílunum sínum!!

Það hefur verið gestkvæmt hjá okkur upp á síðkastið. Fyrst komu hinar óvelkomnu hárlýs í heimsókn. Ég veit ekki hvar við náðum í þær, í lestinni, strætó, á leikvellinum eða hvað, en hún Þórkatla var grálúsug. Fyrsta umferð í hárinu á henni tók þrjá klukkutíma - svo var þvegið með sjampói og umferð tvö tekin - hún tók tvo klukkutíma. Tugir lúsa og sjálfsagt um 300 nit. OOJJJ. Dýrleif var bara með nokkrar lýs og um 70 nit. Ég var með 1 lús og 5 nit. Það undarlega í málinu er að þær klæjaði ekki neitt með allar þessar lýs - mig hefur hins vegar klæjað svakalega eftir alla þessa vitneskju. Mig klæjar bara af því að tala um þetta.
Næsta dag eftir að við fundum lýsnar áttum við von á öðrum gestum, sem ólíkt lúsinni, var gaman að fá í heimsókn. Einar Páll kom í heimsókn með syni sína, Berg Tareq og Alexander Frey og þeir ætluðu að gista.

Nú voru góð ráð dýr - við þurftu að þrífa allt hátt og lágt. Það er að segja þvo sængur, sængurver, taka í burtu púða og þess háttar því ég kunni ómögulega við að þeir færu að flytja ameríska lús inn til Íslands. Það gæti verið tollur á slíkum varningi, ha, ha!!
Stelpunum fannst æðislegt að fá Berg. Þær töldu niður í nokkra daga áður en hann kom. Það var svo spennandi að sýna vinum sínum nýja umhverfið sitt. Svo var þetta ágætis uppbrot svona áður en skólinn byrjar en það gerist á miðvikudaginn. Ómar bróðir kemur svo í kvöld - það verður gott að fá hann því að ég þarf einhvern til að kenna mér á nýja símann, símsvarann, sjónvarpið o.fl. Mér leiðist mjög að lesa mig í gegnum bæklinga með tækjum. Betra að einhver segi: "Þú gerir bara svona..."

3 ummæli:

Hanna sagði...

æ hvað ég er ánægð með Skype-ið! Takk fyrir spjall kvöldsins og góða nótt/gott kvöld til ykkar.

Knús
Hanna

Nafnlaus sagði...

Ji hvað ég hefði farið yfirum að fá þessa gesti í heimsókn!!! Vonum að þeir komi ALDREI aftur.
kveðja,
Hulda

Nafnlaus sagði...

Jiii hvað það er gaman að lesa skrifin þín elsku Kristín mín. Mig er farið að klæja...

Hlakka til að fá næstu færslu á skjáinn. Saumó var ekki samur án þín og þíns ferska blæs, Anna var líka fjarri góðu gamni þannig að Ameríkuförin var ekki plönuð í þaula eins og til stóð en við gerum það í lok sept þegar ég held saumó.

Ég ætla að reyna að ná á þig á Skypinu þegar stúlkurnar eru farnar í skóla og þú hefur kannski smá stund þegar þú ert ekki að sópa...

Bið að heilsa, bestu kveðjur Solla.