fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Stundum er ég pirruð yfir því hvernig hlutirnir virka hérna. Kerfið er undarlegt. Það verður t.d. seint hægt að toppa þetta:

Til að kaupa bíl þurfum við bílpróf frá Conneticut.
Til að taka bílpróf þarf maður að mæta á bíl - má ekki vera bílaleigubíll.

Ég sé t.d. fyrir mér aðstæður þar sem einhver nýr nágranni bankar uppá og segir:

Sæll/sæl
Ég var að flytja í húsið við hliðina - getur þú lánað mér bílinn þinn svo ég komist í bílpróf?

mánudagur, 25. ágúst 2008


Þá er Ívar farinn aftur til Íslands, Sveinn farinn að vinna alla daga og skólinn hjá stelpunum byrjar á miðvikudaginn. Lífið verður orðið rútína áður en langt um líður. Ég þarf að fara að fá mér ryksugu svo ég geti leikið alvöru húsmóður. Ég þoli ekki að sópa. Sveinn kemur svo að sjálfsögðu alltaf heim í heitan mat á kvöldin þar sem við mæðgur sitjum settlegar í sófanum og bíðum eftir að hann detti inn úr dyrunum.
Annars þá er gaman að segja frá því að OBAMA sendi mér SMS um daginn til að láta mig - bara mig - vita hvern hann hefði valið fyrir varaforseta. Sveinn stökk á fætur, skrifaði frétt sem hann átti bara eftir að lesa inn þegar rafmagnið fór - með því fór síminn og netið. Einhver trukkabílstjóri hafði slitið rafmagns og kapallínurnar í loftinu. Nú voru góð ráð dýr því minn maður ætlaði að ná þessu í hádegisfréttirnar. Hann sagði því hádegisfréttir í gegnum gsm símann. Þar sem ekkert bólaði á rafmagninu næstu klukkutímana fór Sveinn á stjá með fartölvu og myndavél - hann ætlað á kaffihús til að senda frétt. Það gekk ekki upp en áður en þá kom bókasafnið í Cos Cob honum til bjargar. Eftir að konurnar voru búnar að sussa einu sinni á hann lánuðu þær honum herbergi til að lesa inn. Allt fór þetta því vel að lokum en tók allan laugardaginn. Ég skil ekki af hverju kaninn grefur ekki línurnar í jörðu eins og við á Íslandi. Rafmagnið fer oft af hérna vegna eldinga og þegar fólk slítur línurnar með bílunum sínum!!

Það hefur verið gestkvæmt hjá okkur upp á síðkastið. Fyrst komu hinar óvelkomnu hárlýs í heimsókn. Ég veit ekki hvar við náðum í þær, í lestinni, strætó, á leikvellinum eða hvað, en hún Þórkatla var grálúsug. Fyrsta umferð í hárinu á henni tók þrjá klukkutíma - svo var þvegið með sjampói og umferð tvö tekin - hún tók tvo klukkutíma. Tugir lúsa og sjálfsagt um 300 nit. OOJJJ. Dýrleif var bara með nokkrar lýs og um 70 nit. Ég var með 1 lús og 5 nit. Það undarlega í málinu er að þær klæjaði ekki neitt með allar þessar lýs - mig hefur hins vegar klæjað svakalega eftir alla þessa vitneskju. Mig klæjar bara af því að tala um þetta.
Næsta dag eftir að við fundum lýsnar áttum við von á öðrum gestum, sem ólíkt lúsinni, var gaman að fá í heimsókn. Einar Páll kom í heimsókn með syni sína, Berg Tareq og Alexander Frey og þeir ætluðu að gista.

Nú voru góð ráð dýr - við þurftu að þrífa allt hátt og lágt. Það er að segja þvo sængur, sængurver, taka í burtu púða og þess háttar því ég kunni ómögulega við að þeir færu að flytja ameríska lús inn til Íslands. Það gæti verið tollur á slíkum varningi, ha, ha!!
Stelpunum fannst æðislegt að fá Berg. Þær töldu niður í nokkra daga áður en hann kom. Það var svo spennandi að sýna vinum sínum nýja umhverfið sitt. Svo var þetta ágætis uppbrot svona áður en skólinn byrjar en það gerist á miðvikudaginn. Ómar bróðir kemur svo í kvöld - það verður gott að fá hann því að ég þarf einhvern til að kenna mér á nýja símann, símsvarann, sjónvarpið o.fl. Mér leiðist mjög að lesa mig í gegnum bæklinga með tækjum. Betra að einhver segi: "Þú gerir bara svona..."

laugardagur, 16. ágúst 2008


• Við erum flutt í bæ sem heitir Cos Cob. Hann er í Conneticut.
• Við búum í enda raðhúsi – þrjú svefnherbergi og bílskúr.
• Það tekur Svein um 45 mín að ferðast með lest til Manhattan.
• Við ferðumst fótgangandi, með strætó og lest. Við eigum engan bíl enn sem komið er - okkur vantar social security nr til að kaupa hann.
• Konan sem á húsið sem ég bý í keyrir mig í búðina.
• Við urðum að fara með stelpurnar til læknis í svokallað „physical“ til þess að þær fái að byrja í skóla hér. Þær voru bólusettar fram til fimmtugs (þær voru með allar íslenskar bólusetningar), fóru í blóðprufu og þvagprufu.
• Þetta kostaði 100.000 íslenkar krónur.
• Sjóvá – sem sjúkratryggir okkur – neitar að borga reikninginn. Mig vantar lögfræðing!
• Við þurfum að fara í bílpróf, skriflegt og verklegt. Hér gengur maður í ungdóm á ný. Fyrir utan smávægileg leiðindi þegar þarf að eiga við kerfið hér þá líður okkur mjög vel. Við erum mjög ánægð með húsið okkar og nóg pláss fyrir gesti.
Ívar kom sama dag og við fluttum inn, 5. ágúst. Það er búið að vera notalegt að hafa hann hérna hjá okkur og að hann taki þátt í þessu með okkur frá upphafi.

Við fórum til Manhattan á þriðjudaginn með krakkana sem var frábært. Ívar hefur ekki komið þangað áður þannig að við nutum lífsins í hæga gírnum: fórum í Central Park, fórum rúnt með hestvagni, kíktum í búðir, fórum á Times squere og svo út að borða. Dagurinn er svo fljótur að fara í svona stórborg og nóg að gera. Ívar fer aftur til Íslands á þriðjudaginn. Það verður skrýtið að hafa hann ekki hér hjá okkur.

Síðasta laugardag héldum við innflutningsboð fyrir alla sem við þekkjum hér. Lína og Sigtryggur komu, foreldrar Línu – Dadda og Dúddi en hann er 91 árs og hinn sprækasti, og fólkið sem býr í næsta húsi við Línu og Sigtrygg – Daisy, Cedo og krakkarnir þeirra. Þetta var frábært boð – það er svo gaman að fá fólk í heimsókn.

Bara eins og á Íslandi:
Þegar við komun til USA fórum við til Brewster til Línu og Sigtryggs. Í næsta húsi við þau búa Daisy og Cedo sem við kynntumst ágætlega. Cedo er málari frá Serbíu. Við Sveinn skoðuðum hús út um allt og fyrir rest fundum við húsið okkar hérna í Cos Cob. Svo skemmtilega vildi til að maðurinn sem á húsið er líka frá Serbíu og líka málari. Við sögðum Cedo frá þessari skemmtilegu tilviljun næst þegar við hittum hann. Við segjum honum hvað maðurinn heitir og hann fer að hlæja og segir – þetta er frændi minn. Hann og mamma eru systkinabörn. Þvílík tilviljun – því við erum 50 mínútum sunnar en þar sem Cedo býr og í öðru fylki en þar er eins og við séum á Selfossi að spyrja um einhvern á Hellu.

Nóg af kjaftagangi í bili – ég er að fara á röltið með Sveini að skoða bíla. Það er Toyota umboð í göngufjarlæð.

Símanúmerið okkar og heimilisfangið okkar er neðar á síðunni, vinstra megin.