miðvikudagur, 12. desember 2007

Nýja gifsið hennar Stínu fínu

Já, í morgun fór ég í endurmat á endurkomudeild bráðamóttökunnar. Saumarnir voru teknir úr ökklanum og í staðinn fyrir spelku fékk ég heilt gifs frá hnéi og niður - sem er reyndar úr plasti svo það er ekki gifs. Hjúkrunarkonunni, henni Ingu, leist mjög vel á saumana, fannst handbragðið fallegt, og sagði: "sá hefur verið að vanda sig, hann hefur greinilega ætlað að passa uppá að þú kæmist aftur í háu hælana". Kannski að það hafi verið mín síðasta ósk eftir að ég fékk kæruleysissprautuna - ég man það bara ekki, man reyndar ekki neitt eftir að ég fékk þá sprautu.

Eftir að gifsið var tilbúið var mér rúllað inn á röntgendeild þar sem ég fékk að leika módel. Mér er búið að vera svo illt í ristinni eftir að ég datt á heilsugæslustöðinni í síðustu viku og óttaðist að ég hefði skemmt eitthvað. Niðurstaðan var hins vegar mjög góð. Ekkert var brotið eða skemmt en ekki útilokað að ég hafi tognað á ristinni. Fyrst allt leit svona vel út fékk ég skó undir gifsið og má núna tylla niður fæti. Þvílíkur léttir!

Ég var svo hress eftir heimsókn mína á bráðamóttökuna að ég bað Svein um að fara með mig á Búlluna í hádegismat. Ég heimtaði meira að segja að fá að sitja þar inni og borða (sem ég vil helst aldrei gera vegna ólyktar) því ég vildi eiga sönnun um að ég hefði gert eitthvað annað en að hanga í sófanum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert ekki ennþá búin að að segja mér hvað kom eiginlega fyrir þig?

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Ég rann á hausinn í hálkunni á þriðjudaginn fyrir 2 vikum. Var á leiðinni í vinnuna. Ég braut sperrilegginn við kúluna á ökklanum. Beinið snérist svo að ég þurfti að fara í aðgerð, fékk tvær skrúfur og einn keng. Er búin að vera í sófanum/rúminu síðan með fótinn upp í loftið.

Nafnlaus sagði...

þetta er agalegt Vigbljúg mín... Gleðileg jól annars! kv. pib