Svona lítur ökklinn á mér út á röntgenmynd. Þarna eru tvær skrúfur og einn kengur. Ég steingleymdi að spyrja að því hvort og þá hvenær aukahlutirnir verði fjarlægir úr fætinum. Verð að muna eftir því í janúar þegar ég fer aftur í skoðun.
Ég var að hugsa um vinnuna í dag. Ég veit hreinlega ekki hvernig það verður að fara aftur að vinna eftir að hafa hangið svona lengi og gert ekkert. Maður verður alveg óvirkur og heiladauður. Ég sef fram að hádegi og vaki fram eftir á kvöldin. Það er ekki nóg með að ég sé búin að snúa sólarhringnum við heldur er ég líka orðinn sjónvarpssjúklingur sem lítur út eins og vampýra. Í gær horfði ég á heila seríu af Cold feet og í dag horfði ég á seríu af Sex and the city, 6 þætti af Friends og alla auglýsta sjónvarpsdagskrá frá kvöldfréttum. Það er enn kveikt á sjónvarpinu. Ég er hreinlega búin að gleyma því hvað ég gæti verið að gera annað. Er reyndar með þrjár bækur á náttborðinu. Þær les ég fyrir svefninn.
Framundan er jólaundirbúningurinn. Mér finnst undarlegt að jólin séu rétt handan við hornið. Við erum ekki búin að gera mikið til að undirbúa þau hér á Linnetz. Það er því eins gott að pakka aðgerðaleysinu niður í kassa og spýta í lófana. Helgin verður vonandi nýtt vel. Mest hlökkum við Sveinn til að kaupa jólatréð. Það er svo mikil stemning að kaupa jólatré hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, fá heitt kakó og kjafta úti í skógi. Ég ætla að reyna að búa til piparkökudeig á morgun svo að við getum bakað um helgina. Svo eru það allar jólagjafirnar... hvað skal gera í þeim málum?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli