Ég fékk nýtt gifs á föstudaginn. Gamla gifsið var brotið við tábergið þannig að það klemmdi mig þegar ég gekk um. Núna er frúin komin með jólagifs. Fjólublátt með glimmer og stjörnum. Dömurnar á göngudeildinni voru í svo miklu jólaskapi á föstudaginn að þær skreyttu með glimmeri og borðskrauti fyrir þá sem vildu. Að sjálfsögðu segir maður ekki nei við slíku djásni. Ég fékk meira að segja að fara með fótinn í jólabað, með olíu og allt. Ég er svo ánægð með nýja “lúkkið”. Áður en gifsið var tekið hafði ég á tilfinningunni að fóturinn væri kominn í samt lag undir gifsinu. Það eina sem angraði mig var klemman við tábergið. Þegar gifsið var tekið af varð ég frekar undrandi. Ökklinn er enn tvöfaldur og það er ekkert gott að hreyfa sig þegar gifsið er ekki á. Ég hefði getað svarið að mér væri batnað!
Annars er ég búin að vera ansi mikið á ferðinni síðustu daga. Orðin nokkuð góð í að ganga og farin að sleppa hækjunum að mestu innanhúss. Ég hleyp að sjálfsögðu ekki um eins og kálfur en næstum því. Ég fór á jólaskemmtun hjá stelpunum og svo í jólamatinn með samstarfsfólki mínu á fimmtudaginn síðasta. Við fjölskyldan tókum svo jólaverslunina með trukki á föstudaginn – Kringlan, Smáralindin og Laugavegurinn voru heimsótt. Guð hvað maður fer í fúlt skap í verslunarmiðstöðvum. Það drepur alveg niður jólaskapið. Hins vegar bætti Laugavegurinn úr því öllu og ég komst aftur í gírinn. Við enduðum jólainnkaupin á því að fara á Hornið og borða. Það var svo kósí.
Stærsti jólasigurinn til þessa er að það hafðist loksins að koma öllum jólakortunum í póst fyrir jólin. Þau fóru að vísu ekki fyrr en á fimmtudaginn þannig að þau ná ekki á alla áfangastaði fyrir aðfangadag. Vonandi fyrirgefa vinir okkar í útlöndum seinaganginn. Ég áttaði mig allt í einu á því að jólakortin eru mesti stressvaldurinn hjá mér fyrir jólahátíðina. Ég ætla alltaf að senda myndir en þegar ég kem mér að verki er ég orðin of sein að láta prenta eða það eru ekki til nógu góðar myndir o.s.frv. Ég er með verkkvíða frá október og fram að jólum. Nokkuð magnað að maður noti tímann til að kvíða fyrir í stað þess að framkvæma. Ég er sem sagt komin með verkefni fyrir næstu jól – beisla kvíðann og breyta honum í framkvæmdarorku!
Stelpurnar eru í miklu jólaskapi þessa dagana. Þær syngja jólasyrpur daginn út og inn. Það var frábært að fylgjast með þeim skreyta jólatréð í gær. Þær voru svo hamingjusamar. Jólasveinarnir hafa verið þeim góðir í ár enda hafa þær verið mjög þægar. Ég var meira að segja svo þæg að Kertasnýkir gaf mér í skóinn. Ég fékk nýja "Take that" diskinn. Gott að jólasveinninn hefur tekið eftir óbilandi áhuga mínum á strákaböndum. Gleðileg jól!
2 ummæli:
Eru ennþá jól hjá ykkur?
Já hjá okkur eru alltaf jól. Skrifa eitthvað nýtt fljótlega. Kv. Kgb
Skrifa ummæli