laugardagur, 20. september 2008


Á þriðjudaginn síðasta dreif frúin sig í bílpróf – bóklega hlutann. Sem betur fer náði ég en VÁ hvað ég var stressuð. Prófið er gagnvirkt og maður fær því að vita strax hvort maður svarar rétt eða vitlaust. Ég svaraði fyrstu spurningunni vitlaust og fór nærri því á taugum. Stórt rautt merki birtist á sjánum “WRONG ANSWER”. Mér var ekki skemmt. Sem betur fer voru næstu spurningar mér hliðhollari en ég hafði það oft á tilfinningunni að ég væri í barþjónaprófi. Ein spurningin var: Eitt viskýskot inniheldur jafn mikið alkahól og (a) 1 bjór, (b) tveir bjórar, (c) þrír bjórar, (d) fjórir bjórar? Svo var önnur um hversu margar prósentur umferðaslysa í USA tengjast áfengi. Mér finnst þetta ekki tengjast umferðarreglunum mikið þó að það sé að sjálfsögðu gott að vita að akstur og áfengi fari ekki saman.

Kvöldið áður en ég fór í prófið sá ég að þann 1. okt breytast reglurnar en þá þarf maður að fara í 8 ökutíma til að fá að fara í bílprófið. Sveinn varð því að taka á honum stóra sínum og lesa skemmtilega umferðabæklinginn í lestinni til að ná þessu fyrir 1. okt. Hann dreif sig svo á föstudaginn og náði með stæl. Hann var álíka stressaður og ég. Það er bara eitthvað svo skammarlegt við það að “FALLA” þegar maður hefur keyrt bíl í á annan og þriðja tug ára.

Þó svo að bæklingurinn góði lofi manni verklegu bílprófi á innan við tveimur vikum eftir bóklega prófið þá er raunveruleikinn annar. Ég fer ekki í próf fyrr en 29. okt. og Sveinn ekki fyrr en 9. nóv. Við getum því ekki eignast bíl fyrr en í byrjun nóvember. Við mæðgur erum heitastar fyrir blæjubjöllu – rauðri – en ætli við verðum ekki að fá okkur eitthvað aðeins praktískara.

Annars þá hefur verið nóg að gera hjá okkur. Ómar bróðir kom í lok ágúst. Þegar hann var búinn að vera í nokkra daga hringdi Klara systir og tilkynnti komu sína – daginn eftir. Hún kom með Öglu, elstu dóttur sína. Við vorum því hér saman þrjú af fjórum systkinum í nokkra daga. Sveinn var því miður fjarri góðu gamni því á sama tíma var hann í New Orleans að segja fréttir af roki og rigningu. Þessa vikuna hafa svo stelpurnar skipst á að vera veikar. Það er greinilega hægt að fá hita og hor í nös þó að úti sé sól og sumarylur.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Komið þið sæl. Gaman var að sjá Svein í Kjalarnesveðrinu í New Orleans, alltaf í TVinu hjá okkur hér. Bílprófið, þú ferð nú létt með það ef ég þekki þig rétt. Annars ekkert að frétta hér bara sól og blíða á Eski en rok og rign í Rvk. Rólegt í hreyðrinu hér aðeins 3 ábúendur. Vil biðja Svein afsökunar á að eyðileggja fyrir Selfoss sénsinn á úrvalsdeildar sætinu, en það kemur bara næst. Anna er i herþjálfun á Reyðarf ásamt tveim öðrum kennslukonum héðan, segist vera að búa sig undir fertugs aldurinn.