Það er ekki skóli hjá Þórkötlu og Dýrleifu í dag vegna þess að það spáir snjókomu uppúr hádegi. Ég á mjög erfitt með að skilja þetta. Það er auðvitað ekki pottþétt að það snjói. Mér skilst að í fyrra hafi skólanum veri aflýst vegna yfirvofandi snjókomu sem aldrei kom. Það má víst aflýsa skólanum hér 5 sinnum yfir veturinn vegna snjós. Ef lítið eða ekkert snjóar styttist skólaárið sem nemur um þá daga sem ekki voru nýttir í snjófrí.
Annars erum við frekar slök hér í Ameríkuhreppi. Erum ekki einu sinni búin að kaupa jólatré hvað þá spá í hvað eigi að borða á aðfangadagskvöld. Það er mjög lítið stress í undirbúningnum þetta árið. Pakkarnir til Íslands fóru í nóvember og búið að ákveða hvað á að gefa gríslingunum að þessu sinni. Það sem veldur mér mestu stressi öll jól eru blessuð jólakortin, og þó svo ég sé heimavinnandi þá eru þau ekki enn komin í póst - sem oft áður. Þetta verða bara nýjárskort eins og svo oft áður.
1 ummæli:
ehemm, einmitt. Í fyrra á 17. júní þá sló fyrirhyggjan og roluhátturinn öll met. Þá var 17. júní hátíðarhöldum í Kaupmannahöfn frestað vegna veðurspár um rigningu. Það má geta þess að veðrið var bara nokkuð gott þennan umrædda dag, smá skúrir en annars nokkuð ágætt. Ég frétti af mörgum sem tóku sig saman og héldu sín eigin rótarskot af hátíðarhöldum um vítt og breitt stórkaupmannahafnarsvæðið. Tjahhérna, fyrrmánúaldeilisfyrrvera...
Skrifa ummæli